21.6.2008 | 00:11
Ólátabelgir
Eftir mikinn eril lögreglunnar hér um síðustu helgi er ekki nema von að margir hafi áhyggjur af næstu hátíð. Hvað er að gerast? Ég er þeirrar skoðunnar að hér á landi er orðinn til einhver óræður hópur fólks sem leitar uppi vandræði og ferðast því á milli staða þar sem uppákomur eru, óháð hvers lags hátíð er haldin. Ég frétti til dæmis af gengi úr Sandgerði, sem kom hingað í þeim yfirlýsta tilgangi að berja á öðru gengi úr Reykjavík. Þessir menn komu ekki á Bíladaga, eða AIM Festival.
Það væri fróðlegt að greina öll þau mál sem komu til kasta lögreglunnar á Akureyri um helgina. Einhvers staðar sá ég að þau hafi verið 265, og þar af, að mig minnir 13 líkamsárásir. Hvaðan var þetta fólk sem þurfti að hafa afskipti af? Á hvaða aldri var það? Af hverju var það á Akureyri? Hversu hátt hlutfall voru "góðkunningjar" lögreglunnar? Ég er sannfærður um að minnihluti hafi verið á þeim aldri sem Skátarnir úthýstu af tjaldstæðunum.
Þetta er landsvandamál, ekki staðbundið hér. Virðingarleysi gagnvart lögreglu vex og hún á oftar í vök að verjast. Ofbeldi vex og verður miskunnarlausara. Við verðum öll að taka höndum saman og stoppa þessa gikki. Látum þá ekki skemma fyrir okkur. Tökum þá föstum tökum og vinnum öll saman gegn þeim og leiðum þá af villum vegar, til betra skemmtanahalds og betra mannlífs.
Höft, bönn og útskúfun eru ekki réttu vopnin. Fáum þau með okkur í þetta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.