Bæjarstjóralaun

Það er afar sérkennilegt, þótt ekki sé meira sagt, hvernig samið var við bæjarstjórann í Grindavík. Það er eðlilegt frá hans hlið að reyna að semja um sem best kjör og ekki við hann að sakast. Hins vegar má spyrja sig að því hvernig bæjarfulltrúum gat dottið í hug að gera svona samning. Þetta hlýtur að flokkast undir klúður, eða hreint og klárt ábyrgðarleysi og vanvirðing við það fólk, sem kaus þá til að sjá um sameiginlega sjóði bæjarbúa. Þessi smaningur er til skammar fyrir þá sem hann gerðu.

Svona "bæjarstjóravitleysa" er svo sem víðar en í Grindavík og birtist í ýmsum myndum.  Á það samt yfirleitt sameiginlegt að tengjast sjálfstæðisflokknum á einn eða annan hátt.

Hér á Akureyri er okkur t.d. boðið upp á þrjá bæjarstjóra, þetta kjörtímabil. Þau Kristján Þór, Sigrúnu Björk og svo væntanlega Hermann. Bæjarstjórinn á Akureyri hefur ágætislaun, enda mikið starf. Ég hef nú stundum gagnrýnt ráðningasamningana, en þeir eru sem betur fer ekkert í líkingu við Grindavíkurgjörninginn. Samt er í raun og veru, afskaplega sérkennilegt samningaferli í kring um þetta.

Það voru Sigrún Björk og Hermann, sem sömdu við Kristján Þór. Hermann og Kristján Þór, sömdu við Sigrúnu Björk og svo koma Kristján Þór og Sigrún Björk til með að semja við Hermann!!!!! 


Smá sumarfrí

Þessi bloggveröld er tiltölulega ný fyrir mig og ég rétt byrjaður að blogga. Samt vekur það furðu mína hve margar heimsóknir þessi síða mín fær. Ég er ekkert sérlega duglegur að blogga. Ég læt það ráða, að ég blogga, þegar mér finnst ég hafa eitthvað að segja, en ekki af því að það var svo langt síðan ég skrifaði eitthvað síðast. Það er gaman þegar einhver sér ástæðu til að skrifa athugasemd við pislana mína og ég þakka þeim sem það hafa gert.
Nú ætla ég að taka mér smá sumarfrí. Ég ætla að rúlla hringinn í rólegheitum. Það verður auðvitað til þess að gloppóttar heimsóknir verða hingað inn.
Veðrið er svo gott og landið skartar sínu fegursta og þess ætla ég að njóta.   Gleðilegt sumar

Nýtt orðatiltæki

Ef einhver er hissa á dvínandi vinsældum ríkisstjórnarinnar, þá minnir það á krakkann sem spurði kennarann í skólanum: Er hægt að refsa manni fyrir það sem maður hefur ekki gert? Nei auðvitað ekki segir kennarinn. Gott segir krakkinn, ég lærði nefnilega ekki heima!!!

Þessi ríkisstjórn hefur afskaplega lítið sýnt. T.d  Árni fjármálaráðherra, það er eins og hann sé í afneitun. Yfir þjóðina skellur hver holskeflan á eftir annarri og hann sér það ekki. Segir bara að allt sé í lagi og allt verði gott. Rankaði aðeins við sér og varð sjálfum sér til minnkunnar með ráðningu og rökstuðningi. Kristján Möller byrjaði að krafti, en nú er búið að svæfa hann líka. Geir heldur að hann hafi þann ógnar sannfæringakraft sem Davíð hafði og nóg sé að hann segi nokkur orð. Svona mætti lengi telja.

Reyndar er nýr frasi orðinn vinsæll. Frasinn merkir að gera ekki neitt. Frasinn er "AÐ HAARDAST"  


mbl.is Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn raunverulegi vandi

Þessi frétt undirstrikar hver er hin raunverulega ógn við samfélagið.
Mér finnst oft með ólíkindum hversu lögreglan stendur sig vel í þessarri baráttu miðað við þær aðstæður, sem henni er búin, með t.d. fjárveitingum frá ríkisvaldinu. Það væri mikið þjóðþrifamál að auka fjárveitingu til þessarra mála. Við græðum öll á því þegar upp er staðið. 
Eiturlyfjaneysla eyðileggur alla. Ekki bara neytandann, heldur líka fjölskyldu hans og samfélagið allt.
Við verðum að beita öllu afli og öllum tiltækum ráðum gegn þessu böli.

 


mbl.is Átök innan fíkniefnaheimsins á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekstur Menningarhúss

Ársreikningar Akureyrarbæjar voru í dag til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Reksturinn var mjög góður árið 2007 og er það ánægjulegt. Auðvitað gat hann ekki verið annað en góður, því aðstæður í þjóðfélagina hafa verið með allra besta móti og rekstrarumhverfi mjög hagstætt. Við vonum bara að árið 2008 komi eins vel út, sem ég er ekkert sérlega bjartsýnn á.

Á næsta ári bætist svo við gjaldameginn mjög stórir póstar og vegur þar rekstur menningarhúss langmest. Væntanlegur rekstrarkosnaður hefur verið hálfgert feimnismál hjá meirihlutanum og þeir hafa forðast eins og heitan graut að ræða um hann. ég er ekki viss um að meirihlutinn sé búinn að átta sig á hversu hár hann verður.

Ég fór aðeins yfir þetta í grein í Vikudegi um daginn, sem má lesa hér http://vikudagur.is/?m=news&f=viewItem&id=1949 . Þar fjallaði ég fyrst og fremst um afleik sjálfstæðisflokks í samningi við ríkið um aðkomu að rekstri og vöntun á verðtryggingu hlutar ríkisins í byggingarkosnaði.

Ég get ekki betur séð með lauslegum útreikningi að reksturinn verði um 340-360 milljónir á ári, eða eins og ég segi í greininni, 1 milljón á dag. Ég er hræddur um að þetta taki einhvers staðar í. Þess má geta að samkvæmt ársreikningi fyrir 2007 voru heildarframlög bæjarins til menningarmála 373 milljónir, með ríkisframlagi upp á sem ég man ekki hvert var, ein einhvers staðar í kringum 100 milljónir.

Áætlun 2008 gerir ráð fyrir 345M til menningarmála, þar af 120M frá ríki. Þannig að bærinn leggur beint í þennan málaflokk um 225M. Á næsta ári bætist svo menningarhúsið við, um 350M, en engar viðbótargreiðslur frá ríkinu. Þannig að hlutur bæjarins fer úr 225 milljónum á ári í 575 milljónir, eða hækkar um 150%. 

Það er óskandi að ríkisstjórnin leiðrétti þennan afleik sjálfstæðismanna á Akureyri í samningnum. 


Ólátabelgir

Eftir mikinn eril lögreglunnar hér um síðustu helgi er ekki nema von að margir hafi áhyggjur af næstu hátíð. Hvað er að gerast? Ég er þeirrar skoðunnar að hér á landi er orðinn til einhver óræður hópur fólks sem leitar uppi vandræði og ferðast því á milli staða þar sem uppákomur eru, óháð hvers lags hátíð er haldin. Ég frétti til dæmis af gengi úr Sandgerði, sem kom hingað í þeim yfirlýsta tilgangi að berja á öðru gengi úr Reykjavík. Þessir menn komu ekki á Bíladaga, eða AIM Festival.

Það væri fróðlegt að greina öll þau mál sem komu til kasta lögreglunnar á Akureyri um helgina. Einhvers staðar sá ég að þau hafi verið 265, og þar af, að mig minnir 13 líkamsárásir. Hvaðan var þetta fólk sem þurfti að hafa afskipti af? Á hvaða aldri var það? Af hverju var það á Akureyri? Hversu hátt hlutfall voru "góðkunningjar" lögreglunnar? Ég er sannfærður um að minnihluti hafi verið á þeim aldri sem Skátarnir úthýstu af tjaldstæðunum.

Þetta er landsvandamál, ekki staðbundið hér. Virðingarleysi gagnvart lögreglu vex og hún á oftar í vök að verjast. Ofbeldi vex og verður miskunnarlausara. Við verðum öll að taka höndum saman og stoppa þessa gikki. Látum þá ekki skemma fyrir okkur. Tökum þá föstum tökum og vinnum öll saman gegn þeim og leiðum þá af villum vegar, til betra skemmtanahalds og betra mannlífs.

Höft, bönn og útskúfun eru ekki réttu vopnin. Fáum þau með okkur í þetta. 


Helgin að verða liðin

Það má ýmislegt segja um helgina, en hún fór að lang mestu leiti vel fram hér. Auðvitað er ein líkamsárás, einni líkamsárás of mikið. Erfitt fyrir okkur að gera iokkur í hugarlund hvernig er að verða fyrir slíku og hvað á eftir fylgir. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.

Ég held að við verðum að vera varkár í því að kenna einhverri einni uppákomu hér um lætin, sem urðu. Menn nefna oft Bíladaga og þá sem sækja þá, sem sökudólg, en ýmislegt annað var um að vera hér á Akureyri, sem dregur að sér gesti. Ég nefni t.d. hér var Alþjóðleg tónlistarhátíð, AIM Festival, Það er ýmislegt, sem tengist nýjum og eldri stúdentum frá MA. Svo eru aðrir ferðamenn, sem koma til að njóta þess sem bærinn okkar hefur upp á að bjóða. Enn og aftur segi ég samt að langflestir gestir og heimamenn voru til stakrar fyrirmyndar og höfðu það eitt að leiðarljósi að skemmta sér og láta sér líða vel með fjölskyldu og vinum.

Ég er þeirrar skoðunar að til sé orðin hópur fólks, óskipulagður, sem fer á svona uppákomur til að leita vandræða. Fólk, sem hefur það eitt að markmiði að vera með fillerý og læti og láti sig litlu varða þau dagsskráratriði, sem boðið er uppá. Þetta hefur sýnt sig hér og á öðrum hátíðum undanfarið.

Við verðum að grípa til ráðstafana, öll, alls staðar á landinu, með samstilltum aðgerðum til að láta ekki þessa tegund gesta eyðileggja fyrir öðrum. Það eina sem dugir er meiri og strangari öryggisgæsla. Látum þennan hóp finna að hann er ekki velkominn    


Helgin framundan

Það var góð grein í Vikudegi í gær (er líka inn á vikudagur.is) eftir Braga Bergmann. Þarna er  í hnotskurn farið yfir verslunarmannahelgar undanfarinna ára.

Að bæjarstjóri skildi setja aldurstakmark á tjaldstæðin í fyrra, kom ekki bara í bakið á Braga og félögum, heldur kom þetta líka öðrum í bæjarstjórn á óvart.  Þetta var með hreinum ólíkindum að hún skildi gera þetta, því við í bæjarráði höfðum á fundi rétt áður fjallað um hugsanleg aldurstakmörk, en ákváðum að hafa ekki aldurstakmörk, önnur en landslög segja til um eða 18 ár. Hún braut því í raun gegn vilja bæjarráðs, sem hún má ekki gera. Svo vitið þið hvernig þetta er brætt saman eftir á  af meirihlutaflokkunum og allt látið líta út fyrir að hafi verið  ósköp  eðlilegt og sjálfsagt.

Í hönd fer stór ferðamannahelgi hér á Akureyri. Hún byrjaði reyndar  í  gær með  AIM Festival 2008. Síðan eru Bíladagar, Bílaklúbbs Akureyrar og ýmislegt annað.  Það má svo segja að helgin endi ekki fyrr en á þriðjudag, þegar við höldum þjóðhátíðardaginn hátíðlegan.

Veðrið er ekkert sérstakt núna, sólin er við það að brjótast fram og hiti um 10°. Veðrið fer hins vegar batnandi, samkvæmt spám, því lítur út fyrir skemmtilega daga framundan.
Ég vona að allt fari vel fram og verði okkur öllum til sóma, bæði Akureyringum, mótshöldurum og gestum. Mikið var ég óhress með ákvörðun skátana að loka á fullorðið fólk á tjaldstæðunum. Að menn skuli enn falla í þá gryfju að draga fólk í dilka eftir aldri. Við höfum lög, sem taka á þessum málum og við eigum að láta þau gilda.

Bjóðum alla gesti okkar velkomna, látum þeim líða hér vel og skemmtum okkur með þeim. Látum jákvæðni og brosið ráða ríkjum.


Dalsbrautina í stokk

Núna þegar talað er sem mest um stokklagningu við höfnina í Reykjavík, rifjast upp „Dalsbrautarmálið“ á Akureyri.  Meirihlutinn þorði ekki að taka afstöðu í málinu, hvorki að játa né neita og kom með eitthvert málamyndapíp um að leggja Miðhúsabraut til að ákveða hvað hún gerði fyrir Naustahverfi.

Það hefur alltaf verið ljóst í mínum huga að það leysir afskaplega lítið. Ef aðeins önnur brautin ætti bara að koma væri betra á allan hátt að það væri Dalsbraut. Málið er enn í lausu lofti. Íbúar Naustahverfis vita ekkert hvort þeir fái betri samgöngur við hverfi sitt og íbúar Gerðahverfis vita heldur ekkert hvort Dalsbrautin kemur eða ekki.

Ég  setti fyrir mörgum árum fram þá skoðun að leggja ætti Dalsbrautina í stokk . Með því leysist allur vandi. Við fáum góða tengingu úr Naustahverfi og umferðaröryggi við Lundarskóla minnkar ekki, frekar eykst. Yfir stokknum  verður svo upplagt að gera fótboltavelli og annað, því nægilegt pláss verður þar.Það er auðvitað ljóst að þessi lausn er dýrari en gata ofanjarðar, en það er svo margt annað sem græðist og því er sá kosnaður réttlætanlegur. Eins er ég þeirrar skoðunar að ef sjálfstæðismenn og samfylking hefðu þorað að gera þetta svona, þá hefði Miðhúsabrautin ekki þurft að koma nærri strax og þar sparast á móti.

Því miður virðist þetta mál liggja í dvala hjá meirihlutanum, eins og annað sem þeir geta ekki tekið ákvörðun um.  Ég segi því. Dustið rykið af málinu og skoðið alvarlega að leggja Dalsbrautina í stokk sem fyrst, því vandamálið vex eftir því sem Naustahverfi stækkar.

Svona drífa sig!!!  


Fjölnotahús í Hrísey

Í dag fór ég út í Hrísey og var viðstaddur víxlu á nýju og glæsilegu Fjölnotahúsi. Húsinu tilheyrir íþróttasalur, þreksalur, kennslueldhús, fundaraðstaða og ekki síst nýuppgerð sundlaug og heitir pottar. Húsið er allt hið glæsilegasta og nýtist vonandi Hríseyingum og gestum vel. Það tókst vel upp með þessa byggingu, sem byggð var af rausnarskap og metnaði.

Til hamingju Hríseyingar!

Þess má geta að engin pólitískur ágreiningur var um þessa framkvæmd í bæjarstjórn, en bygging hússins var ákveðin á síðasta kjörtímabili.

Því miður verður að segjast að ekki er eins mikill metnaður í núverandi meirihluta bæjarstjórnar og framkvæmdir við íþróttamannvirki í öðrum hverfum bæjarins, lýsa ekki áræðni og framsýni.

Við Giljaskóla á að fara að reisa íþróttahús. Það verður með mjög góðri aðstöðu til fimleikaiðkunar (tími til kominn), en íþróttasalurinn er of lítill að mínu áliti og rúmar ekki löglegan handboltavöll, hvað þá áhorfendur.  

Byrjað er á Naustaskóla, en í 1. áfanga er ekkert íþróttahús. Samt sem áður virðist vera búið að ákveða stærð þess. Það rúmar ekki heldur löglegan handboltavöll. Í hverfi, sem mun telja 8000 íbúa, þegar það er fullbyggt.

Það virðast bara vera minni sveitarfélög og Akureyrarbær, sem byggja svona litla íþróttasali. Þvílíkt metnaðarleysi, þvílíkt kjarkleysi og þvílíkur skortur á framtíðarsýn hjá núverandi meirihluta sjálfstæðisflokks og samfylkingar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Oddur Helgi Halldórsson
Oddur Helgi Halldórsson

Akureyringur,
úr Þorpinu,
úr Bótinni. 

Blikksmiður
Iðnrekstrarfræðingur
Bæjarfulltrúi fyrir L-listann á Akureyri.
Þórsari af lífi og sál
Arsenalmaður
Ferrari-fan

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband